Útgerðarfélag Reykjavíkur, félag Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim, og stærsti hluthafinn leggur til við hluthafafund félagsins þann 12. desember næstkomandi að skoðað verði að möguleg skráning félagsins í norsku kauphöllina eða aðrar leiðir til að opna fyrir fjárfestingu erlendra aðila innan lagarammans í fyrirtækinu.

Tillagan er í þremur liðum og felst í því að fela stjórn að skoða, og leggja fram tillögu fyrir aðalfund félagsins á næsta ári, um hvernig best er að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í Brim.

Tvær tillögurnar eru ítarlega framsettar, annars vegar um að breyta tilgangi Brim úr sjávarútvegsfyrirtæki í eignarhaldsfélag sem eigi nýtt dótturfélag sem stofnað verði utan um sjávarútvegsreksturinn.

Hins vegar að stofnað verði erlent félag sem eigi 25% hlutafjár í íslensku félagi sem eigi svo aftur 100% í Brim, og erlenda félagið verði skráð í erlenda kauphöll, t.d. í kauphöll í Noregi.

Þriðja tillagan er að kanna og meta aðrar leiðir til að auka möguleika erlendra aðila á óbeinum fjárfestingum í Brim.

Bein fjárfesting erlendra aðila í gegnum kauphöllina óheimil

Í greinargerð með tillögunum er bent á að hlutafé félagsins lúti takmörkunum um fjárfestingu erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og vinna sjávarafurðir hér á landi, upp að 25% (eftir atvikum 33%).

Vegna reglnanna eru beinar fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum lögaðila sem stundar fiskveiðar eða vinnslu hér á landi óheimilar og því kauphöllin meinað erlendum aðilum að eiga viðskipti með hlutafé í Brimi, eitt íslenskra aðila í kauphöllinni enda eina útgerðarfélagið þar.

ÚR telur hins vegar áhuga vera til staðar hjá erlendum aðilum að fjárfesta óbeint í sjávarútvegi á Íslandi og segir Magnús Helgi Árnason formaður stjórnar ÚR að slík viðskipti yrðu til hagsbóta þar sem það geti aukið verulega getuna til fjárfestinga, eflt rekstur og skapað aukin verðmæti.

Því leggur ÚR til við stjórn Brim að kannað verði og leggja til leiðir til að opna fyrir fjárfestingu erlendra aðila innan þess lagaramma sem er í gildi.

Hér má lesa helstu fréttir um málefni HB Granda og Brim síðan um það leiti sem Guðmundur keypti í félaginu: