Katrín Jakobsdóttir og fimm aðrir þingmenn hafa lagt fram frumvarp sem er ætlað að breyta lögum um framhaldsskóla. „Breytingin sem hér er lögð til á lögum um framhaldsskóla felur það í sér að skylt verður að veita nemendum framhaldsskólanna endurgjaldslausa heilbrigðisþjónustu á skólastað,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Eins og sakir standa hafa nemendur aðgang að skólahjúkrunarfræðingi eða lækni í grunnskólum landsins. Þannig er málum hins vegar ekki háttað í flestum framhaldsskólum, enda ekki skylda til að veita nemendum endurgjaldslausa heilbrigðisþjónustu í skólanum samkvæmt núgildandi lögum. Flutningsmenn frumvarpsins telja nemendur á aldrinum 18-24 ára notfæra sér heilbrigðisþjónustu í minna mæli en efni standa til.

Áætlað er að kostnaður vegna frumvarpsins væri 189.080.000 krónur á ári. „Í lýðræðissamfélagi ætti það að þykja sjálfsagt mál að stuðla að jöfnu aðgengi að mikilvægri grunnþjónustu með samfélagslegum aðgerðum,“ segir í frumvarpinu.