Framtakssjóðurinn gerir ráð fyrir að bjóða öðrum langtíma fjárfestum að kaupa allt að 35% hlut í Icelandic Group á næstu mánuðum. Að mati Framtakssjóðsins mun samstarf við langtíma fagfjárfesta með áhuga og áherslu á sjávarafurðir auðvelda kauphallarskráningu félagsins og skapa því tryggari framtíð.

Þetta kemur fram á vef eignarhaldsfélagsins Vestia, en Vestia tók sem kunnugt er yfir rekstur Icelandic Group í fyrra.

Sem kunnugt er keypti Framtakssjóðurinn Vestia af Landsbankanum í lok ágúst en til upplýsing má taka fram að Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, á aftur á móti 30% hlut í Framtakssjóðnum. Icelandic Group fylgdi með í kaupunum.

Á vef Vestia segir að í kaupunum felist tækifæri fyrir Icelandic Group þar sem aðkoma Framtakssjóðsins tryggi Icelandic Group öflugan bakhjarl.

Þá kemur fram að Framtakssjóðurinn muni beita sér fyrir því að Icelandic Group verði skráð á hlutabréfamarkað. Engar ákvarðanir liggja fyrir um tímaramma skráningarinnar, en gera má ráð fyrir að það verði á næstu 18 til 24 mánuðum háð markaðsaðstæðum.

Þá kemur fram að í ljósi víðtækrar alþjóðlegrar starfsemi Icelandic Group og áhuga alþjóðlegra fjárfesta á félaginu, verða kannaðir kostir tvöfaldrar kauphallarskráningar, það er, að hlutabréf félagsins verði skráð í tveimur kauphöllum, bæði hér og erlendis.

Sjá nánar á vef Vestia.