Eigendur dönsku veitingakeðjunnar Joe and the Juice skoða að skrá félagið á markað á næsta ári að því er Bloomberg greinir frá . Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin en áætlað markaðsvirði félagsins er sagt nálægt 1,5 milljörðum dollara, um 180 milljarðar króna. Skráning í Bandaríkjunum er sögð vera einna helst til skoðunar þar sem félagið stefni á frekari vöxt þar í landi..

Sænska fjárfestingafélagið Valedo Partners og bandaríska félagið General Atlantic, eiga Joe and the Juice að mestu.

Joe and the Juice var stofnað árið 2002 af Kaspar Basse, sem enn er forstjóri fyrirtækisins. Um 300 veitingastaðir undir merkjum Joe and the Juice eru reknir víða um heim, þar af sex á Íslandi.