Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga segir núgildandi lagaákvæði veiti sveitarfélögum litla vörn þegar aflaheimildir eru seldar úr viðkomandi sveitarfélagi.

Leggur félagið áherslu á að sveitarfélög hafi skýran forkaupsrétt þegar skip með aflaheimildum, aflaheimildir eða hlutir í lögaðilum sem eiga skip með aflaheimildum eru seld til aðila í öðrum sveitarfélögum.

„Í ljósi fregna um að um 28% aflaheimilda hafi verið seldar úr Sveitarfélaginu Ölfusi, án þess að sveitarfélaginu hafi verið boðinn forkaupsréttur, skorar stjórn samtakanna á sjávarútvegsráðherra og Alþingi að breyta ákvæðum laga um stjórn fiskveiða hið fyrsta og tryggja sveitarfélögum raunverulegan forkaupsrétt,“ segir í yfirlýsingu stjórnar félagsins.

Þó taka þeir fram að forkaupsréttur hljóti að vera neyðarúrræði þegar miklir samfélags- og atvinnuhagsmunir séu í húfi og hann megi ekki draga um of úr sóknarmöguleikum útgerða og byggðarlaga sem vilja sækja aflaheimildir og byggja upp útgerð á tilteknum stað.

„Slíkt myndi festa núverandi staðsetningu aflaheimilda í sessi. Byggðarlög með útgerð í vexti, þurfa að hafa möguleika til vaxtar.“

Vekur stjórnin því athygli á hugmyndum Byggðastofnunar um að svæðisbinda hluta aflaheimilda og með þeim hætti verja hagsmuni sjávarbyggða. Jafnframt harmar stjórnin boðaða skerðingu á byggðakvóta fyrir komandi fiskveiðiár og telur hún að skerðingin muni komast harðast niður á þeim sveitarfélögum sem nú þegar eigi undir högg að sækja.