*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Innlent 17. apríl 2020 10:45

Vilja skýringar á undanþágu Samherja

Birta lífeyrissjóður kallar eftir rökstuðningi frá Fjármálaeftirlitinu á hvers vegna Samherji fékk undanþágu frá yfirtökutilboði í Eimskip.

Ingvar Haraldsson
Aðsend mynd

Birta lífeyrissjóður hyggst fara fram á frekari rökstuðning á undanþágu sem Fjármálaeftirlit Seðlabankans veitti Samherja á yfirtökuskyldu í Eimskip. Samherji boðaði yfirtökutilboð í Eimskip þann 10. mars. Þá hafði Samherji keypt sig upp í 30,11% hlut í Eimskip og var þar með kominn yfir 30% mörkin sem yfirtökuskylda myndast við. Tíu dögum síðar, 20. mars, tilkynnti Samherji að félagið hefði óskað eftir því við Fjármálaeftirlit Seðlabankans að fá að falla frá yfirtökuskyldunni þar sem aðstæður væri gjörbreyttar í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum. Fjármálaeftirlitið féllst á beiðnina þann 31. mars á grundvelli þess að sérstakar ástæður mæltu með því vegna áhrifa kórónuveirunnar á efnahagslífið. Tilboð Samherji til annarra hluthafa hefði átt að nema vel á annan tug milljarða króna.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að sjóðurinn vilji sjá frekari rökstuðning á því hvað Fjármálaeftirlitið túlki sem sérstakar ástæður. Útskýra þurfi betur hvernig túlka eigi 100. grein laga um verðbréfaviðskipti sem fjallar um tilboðsskyldu og heimilar Fjármálaeftirlitinu að veita undanþágu frá því mæli sérstakar ástæður með því. 

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um fordæmisgildið og framtíðartúlkun á yfirtökuskyldunni og hugtakinu sérstakar aðstæður. Í ljósi þess að fordæmin eru mjög fá og ólík finnst okkur að það þurfi að veita markaðnum fyllri upplýsingar,“ segir Ólafur. Birta er fimmti stærsti hluthafi Eimskips með 5,99% hlut. Samanlagt eiga lífeyrissjóðir meirihluta í Eimskip.

Áhrifa kórónuveirunnar var þegar farið að gæta þegar Samherji boðaði yfirtökutilboð í Eimskip þann 10. mars. Þá höfðu bréf félagsins lækkað um 30% á tveimur mánuðum. „Það má velta upp hvernig þessar sérstöku aðstæður verða túlkaðar í ljósi þess að umræðan um COVID-19 var hafin þegar upphafleg tilkynning barst. Lækkunin á bréfum Eimskips sem þegar var orðin má að einhverju leyti rekja til COVID-19. Þó að áhrif hinna sérstöku aðstæðna hafi mögulega verið meiri en kaupandinn gerði sér grein fyrir,“ segir Ólafur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér