Óskað er eftir að ríkisstjórnin skýri ítarlega hvaða lykilgagna hún telur að þurfi að afla og hvaða lykilþætti þurfi að rannsaka áður en hægt er að taka ákvörðun um hvort hagkvæmt sé fyrir íslensku þjóðina að ráðast í lagningu sæstrengs. Þetta kemur fram í beiðni þingmanna Samfylkingarinnar um að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flytji Alþingi skýrslu um sæstreng.

Beiðnin er nokkuð ítarleg og þar er óskað eftir upplýsingum um ýmis atriði er varða lagningu sæstrengs frá Íslandi til Evrópu. Meðal annars er spurt: „Hvað mælir gegn því að eignarhald sæstrengs sé alfarið á höndum erlendra aðila? Er æskilegt að hluti strengsins sé í íslenskri eign til að tryggja íslenska hagsmuni? Verður eigendum strengsins heimilt að verða beinir þátttakendur í orkuviðskiptum? Hvaða leiðir eru til að koma í veg fyrir að eigendur strengsins misnoti einokun sína varðandi verðlagningu á flutningsgetu? Er talið mögulegt að fjárhagsleg og rekstrarleg áhætta sé tekin að einhverju leyti af öðrum en eigendum sæstrengsins, t.d. með tilliti til áhættu sem breska ríkið hefur samþykkt að taka við uppbyggingu á kjarnorkuverinu í Hinkley Point C þrátt fyrir að það verði í eigu franska orkufyrirtækisins EDF?"

Beiðnina má lesa hér .