Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera – DCI, sem er starfshópur innan Samtaka iðnaðarins, fagna beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns, um skýrslu um ávinning og nauðsyn nýs fjarskiptastrengs til Íslands, m.a. til að laða starfsemi gagnavera til landsins, og um hagræn áhrif af starfsemi þeirra.

Almar Guðmundsson segir það fagnaðarefni að málið sé komið á dagskrá. „Á þessu sviði eins og öðrum þurfum við að vera samkeppnishæf. Það er mikilvægt að við séum ekki eftirbátar annarra landa þegar kemur að áreiðanlegum og traustum gagnaflutningum. Ófullnægjandi fjarskiptatengingar geta komið í veg fyrir að takist að laða til landsins erlenda viðskiptavini. Því er ánægjulegt ef lögð verður áhersla á innviðafjárfestingar af þessum toga.“

Jóhann Þór tekur í sama streng. ,,Það er hagsmunamál okkar allra að hafa fjölbreyttan iðnað í landinu. Ef við horfum út fyrir landsteinana og til þeirra landa sem Ísland er hvað mest í samkeppni við á þessu sviði þá hafa stjórnvöld í þeim löndum lagt mikið á sig til að byggja upp örugg og hagkvæm gagnaflutningsnet að uppruna orkunnar þannig að hægt sé að minnka kostnaðarsaman flutning á raforku yfir langar vegalengdir og bjóða þannig bæði hagkvæma orku nálægt framleiðslustað og öflugar gagnateningar til þeirra staða.“

Bætir hann við að Ísland megi ekki einangra sig með því að enda í þeirri stöðu að vera með hagkvæma, græna og eftirsótta orku en á sama tíma með verulega dýra innviði sem letja viðskiptavini frekar en hvetja til að koma með viðskipti sín til Íslands.