Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþing óska þess að efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, setji á laggirnar þriggja manna nefnd sem skrifi skýrslu um stöðu gjaldeyrismarkaðar og greiðslumiðlunar við útlönd frá hruninu í október 2008. Á formaður nefndarinnar að vera skipaður af norrænum seðlabanka en hinir tveir nefndarmennirnir tilnefndir af Seðlabanka Íslands.

„Mjög slæm staða á gjaldeyrismarkaði og í greiðslumiðlun við útlönd í kjölfar hrunsins og setningar hryðjuverkalaga í Bretlandi hafði víðtæk áhrif á allt þjóðlífið og olli mörgum þungum búsifjum. Eðlileg bankaviðskipti gengu hægt og einstaklingar og fyrirtæki gátu ekki millifært fjármuni sína til og frá landinu. Viðskiptasambönd sködduðust þar sem innlendir aðilar gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar og álit ríkisins beið mikinn hnekki. Þessi staða veikti stöðu íslenskra stjórnvalda í viðkvæmum deilumálum við erlend ríki t.d. um tryggingar innstæðna í erlendum útibúum innlendra banka. Það er mikilvægt að þessi staða verði könnuð með trúverðugum hætti.

Lagt er til að verkið sé unnið undir stjórn erlends aðila svo að skýrsla nefndarinnar njóti trúverðugleika innan lands sem utan. Skýrslan kann að hafa mikið gildi fyrir aðrar þjóðir um það sem gerist í kjölfar hruns fjármálakerfis þjóðar en hún getur einnig verið trúverðugt gagn í hugsanlegum málaferlum opinberra aðila og einkaaðila vegna atvika sem urðu eftir hrun," segir í greinargerð með beiðninni.

Einnig segir að gera megi ráð fyrir að nefndin afli aðallega upplýsinga hjá starfsmönnum Seðlabanka Íslands og eftir atvikum hjá erlendum aðilum en einnig hjá ráðuneytum, ýmsum samtökum atvinnulífsins, námsmanna, lífeyrissjóða o.fl.

Kanna áhrif á samskipti við erlend ríki

Meðal þess sem óskað er eftir að komi fram í skýrslunni er:

1.      Hvernig aðstæður voru í gjaldeyrismálum og greiðslumiðlun við útlönd frá 1. október 2008 til 31. janúar 2009 og enn fremur

a.      hvaða vandamál komu upp og

b.      hvernig þau voru leyst.

2.      Hvaða áhrif hafði staða gjaldeyrismála og greiðslumiðlunar á

a.      Seðlabankann,

b.      banka- og fjármálakerfið,

c.      innflytjendur,

d.      útflytjendur,

e.      ferðamenn,

f.      námsmenn og Íslendinga búsetta erlendis,

g.      aðra,

h.      stjórnmál og samskipti við erlend ríki.

3.      Hvaða viðbragðsáætlanir þurfa að vera tækar til að slík staða endurtaki sig ekki.

Beiðni um skýrsluna kemur frá þingmönnunum Pétri H. Blöndal, Helga Hjörvar, Lilju Mósesdóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ögmundi Jónassyni, Tryggva Þór Herbertssyni, Magnúsi Orra Schram, Þór Saari og Birki Jóni Jónsson.