Níu þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram beiðni um að félags- og húsnæðismálaráðherra útbúi skýrslu um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er flutningsmaður beiðninnar. „Margar alvarlegar staðreyndir og mikilvægar spurningar blasa við þegar staða kvenna á vinnumarkaði er skoðuð,“ segir í beiðni þingmannanna.

Árið 2008 mældist atvinnuleysi karla um 1% en um 1,5% hjá konum. Í kjölfar efnahagshruns jókst atvinnuleysi á landinu verulega, sérstaklega á meðal karla. Í byrjun árs 2009 var atvinnuleysi karla talsvert meira en kvenna, eða rúm 10% borið saman við 7,3% meðal kvenna. Atvinnuleysi meðal karla varð minna en kvenna í byrjun árs 2012 og er nú um 2,6%, borið saman við 3,9% meðal kvenna.

Þingmennirnir vilja að ráðist verði í ítarlega greiningu á alvarlegri stöðu kvenna á vinnumarkaði. Í því skyni verði meðal annars skoðað hvort karllæg slagsíða sé í atvinnuþróunarstefnu stjórnvalda og hvaða áhrif opinberar aðgerðir hafi haft á atvinnuleysi, skipt eftir kynjum.