LBI, gamli Landsbankinn, á í viðræðum um að fella niður 15 milljóna evra skaðleysissjóð, jafnvirði um 2,4 milljarða króna. Sjóðnum var komið á í kringum nauðasamninga LBI árið 2015 þar sem tryggja átti slitastjórn, lykilstarfsmönnum og ráðgjöfum skaðleysi frá hugsanlegum málsóknum gegn þeim vegna starfa fyrir LBI.

Í nýjasta uppgjöri LBI kemur fram að kostnaður upp á 36 þúsund evrur, um 5,7 milljónir króna, hafi verið bókfærður vegna viðræðnanna. Þegar sjóðnum var komið á árið 2015 var kveðið á um að heimilt væri að semja við þá sem sjóðurinn á að vernda að keypt verði trygging gegn málsóknum og það sem eftir stendur verði greitt út til þeirra sem eiga kröfu á LBI. Ella verður sjóðnum slitið árið 2025.

Sjá einnig: Fá 140 milljónir í viðbót frá Glitni

Árin 2016 og 2017 greiddi Glitnir Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni, sem skipuðu slitastjórn Glitnis, um 800 milljónir króna til að hægt væri að leysa upp 7 milljarða króna skaðleysissjóð Glitnis. Mismunurinn var greiddur skuldabréfaeigendum Glitnis. Ársæll Hafsteinsson er framkvæmdastjóri LBI.