Alþjóðlegir lánardrottnar gríska ríkisins eru sagðir ætla að þrýsta á um að ríkisstjórn Grikklands færi fasteignir í eigu ríkisins inn í eignarhaldsfélag sem sérfræðingar muni stýra fyrir hönd evruríkjanna. Með aðgerðinni er ætlað að flýta fyrir sölu á ríkiseignum, sem kröfuhafahópnum finnst ganga treglega. Lagt var upp með það á sínum tíma að Grikkir myndu selja eignir ríkisins, s.s. ríkisfyrirtæki, til að tryggja að stjórnvöld geti greitt til baka þær 240 milljarða evra, jafnvirði 38 þúsund milljarða íslenskra króna, sem gríska ríkið fær að láni svo það geti staðið við skuldbindingar sínar. Fram til þessa hafa stjórnvöld selt ríkiseignir fyrir aðeins fimm milljarða evra. Það er aðeins 10% af því sem upphaflega var stefnt að því að selja árið 2016.

Í hópi kröfuhafanna eru fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, evrópska seðlabankans og frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Reuters-fréttastofan segir að eignarhaldsfélagið með grísku ríkisfasteignunum verði skráð í Lúxemborg. Málið hafi ekki verið rætt í röðum fjármálaráðherra evruríkjanna.