Sex þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en meðflutningsmenn eru Vilhjálmur Árnason frá sama flokki, Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingu, Páll Valur Björnsson frá Bjartri framtíð auk Silju Daggar Gunnarsdóttur og Haraldar Einarssonar frá Framsóknarflokki.

Þannig er lagt til að Alþingi álykti að skora á innanríkisráðherra að fela Vegagerðinni að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar þannig að höfnin geti þjónustað skip í Panamax-flokki.

Í greinargerð með tillögunni segir að fyrirhuguð sé mikil uppbygging í Þorlákshöfn á næstu árum á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. Þorlákshöfn sé eina þjónustuhöfnin fyrir allt Suðurlandsundirlendið og hafi Sunnlendingar staðið í sameiningu að uppbyggingu og framþróun hafnarinnar.

Heimamenn hafi lengi haft áform um að þróa höfnina þannig að hún geti talist stórskipahöfn, en það séu hafnir sem geti tekið við skipum í Panamax-flokki. Panamax-skip séu allt að 290 metra löng og allt að 80 þúsund tonn að stærð. Mikilvægt sé því að íslensk stjórnvöld hafi á takteinum hugmyndir að stækkun og gerð hafnar á næstu misserum.

Í greinargerðinni segir jafnframt að það sé þjóðhagslega mikilvægt að nýta þá sérstöðu sem Þorlákshöfn hafi til uppbyggingar enda styðji slík uppbygging við fjölbreytni í atvinnuþróun og búsetukostum á Suðurlandi. Segir jafnframt að gerð hafi verið líkanprófun hjá Siglingastofnun fyrir stórskipahöfn í Þorlákshöfn fyrir átta árum, sem hafi sýnt að gerð slíkrar hafnar væri vel möguleg og kostnaður næmi fimm til sjö milljörðum króna. Það gæti samsvarar átta til ellefu milljörðum króna í dag.