*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 7. september 2017 15:40

Viðskiptaráð vill stíga skrefið til fulls

Viðskiptaráð fagnar tillögum landbúnaðarráðherra um breytingar á landbúnaðarkerfinu sem kynntar voru 4. september síðastliðnum og telur þær vera skref í rétta átt.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaráð fagnar tillögum landbúnaðarráðherra um breytingar á landbúnaðarkerfinu sem kynntar voru 4. september síðastliðnum og telur þær vera skref í rétta átt. Að mati ráðsins er hins vegar kominn tími til að íhuga hvort ekki eigi á tilteknu tímabili að stíga skrefið til fulls og afnema framleiðslutengdar greiðslur til sauðfjárbænda að fullu. Í stað þess ætti að veita styrki til aukinnar nýsköpunar og tækniþróunar, líkt og gert var á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu á 9. áratugnum. Hægt er að lesa álit Viðskiptaráðs hér. 

Eins og talsvert hefur verið fjallað um á opinberum vettvangi hefur komið fram að staða sauðfjárbænda er bág. Fjöldi bænda stendur frammi fyrir stórkostlegu tekjutapi og er án valkosta í kerfi sem hefur að miklu leyti staðið í stað í áratugi. Viðskiptaráð segir að núverandi krísu þurfi að leysa með enn róttækari breytingum og benda á Nýsjálensku leiðina, sem hægt er að lesa um í smáatriðum í færslu ráðsins hér. 

Nýsjálenska leiðin: kunnugleg saga

Nýja-Sjáland er í dag einn stærsti framleiðandi kindakjöts í heiminum og er langstærsti hluti framleiðslunnar fluttur út. Erfið staða sauðfjárbænda, og annarra landbúnaðargreina, hrintu af stað stórkostlegum breytingum á landbúnaðarkerfi þeirra fyrir um 30 árum. Í upphafi áttunda áratugarins lokaðist einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Nýsjálendinga fyrir landbúnaðarvörur þegar Bretland gekk inn í EEC (European Economic Community) og tók upp tollasamstarf við Evrópuríkin. Brugðust stjórnvöld upphaflega við erfiðri stöðu bænda með því að auka styrkveitingar til greinarinnar, bæði framleiðslutengdar og niðurgreiðslur á innfluttum aðföngum. Sem dæmi stóðu stuðningsgreiðslur undir 90% af tekjum sauðfjárbænda þegar hæst lét. Framleiðsluákvarðanir bænda voru í auknum mæli drifnar áfram af styrkveitingum hverju sinni, fremur en markaðsaðstæðum, og lítið var um nýsköpun í greininni. Í kjölfarið stækkaði sauðfjárstofninn hratt og þurftu Ný-Sjálendingar á tímabili að henda miklu magni af frosnu kindakjöti þegar ekki tókst að selja vöruna.[1]

Eitt yfir alla látið ganga

Samhliða erfiðu efnahagsástandi um miðjan níunda áratuginn réðst ný ríkisstjórn á Nýja-Sjálandi í allsherjarbreytingar á mörgum sviðum efnahaglífsins. Aðaláherslur hennar snéru þó að því að stuðla að aukinni samkeppni í sem flestum atvinnugreinum, losa um hömlur á viðskipti á milli landa og auka samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu. Verðbólgumarkmið var tekið upp á sama tíma og losað var um fastgengi nýsjálensku myntarinnar. Erfiðleikar fylgdu slíkum kerfisbreytingum til skemmri tíma, en rök voru færð fyrir því meðal ríkisstjórnarmeðlima að auðveldara væri að hrinda af stað breytingum innan ákveðinna atvinnugreina ef eitt væri yfir alla látið ganga. Landbúnaðurinn var þar engin undantekning, enda með stærstu atvinnugreinum landsins og uppistaða útflutningsverðmæta landsins. Á örfáum árum voru nær allir styrkir til landbúnaðar á Nýja-Sjálandi felldir niður.[2]

Plásturinn rifinn af

Breytingarnar voru þungbærar á sínum tíma, enda fóru framleiðslutengdar greiðslur til landbúnaðarins í heild sinni úr 34% af tekjum bænda árið 1983 í um 4% á tíu árum.[3] Afnámið hafði í upphafi talsverð áhrif á verð sem fengust fyrir landbúnaðarvörur, sér í lagi meðal sauðfjárbænda. Afnám stuðningsgreiðslna hafði sérstaklega mikil áhrif á sauðfjárræktarbændur, enda námu stuðningsgreiðslur allt að 90% af tekjum þeirra á sínum tíma.

Framlegð í sauðfjárbúskap dróst hlutfallslega meira saman en í öðrum landbúnaðargreinum fyrstu árin eftir afnám styrkjanna, sökum hárra styrkveitinga árin áður. Í kjölfarið breyttist notkun landsvæða bændanna, en á 10 ára tímabili minnkaði notkun beitilands fyrir kindur og nautgripi um 16%. Svæðin voru í stað þess nýtt í aðra framleiðslu, og lá beinast við í tilviki Nýja-Sjálands að snúa sér að vín- og garðyrkjurækt. Þá var stórum hlutum breytt í skóglendi á sama tíma og ferðaþjónusta blómstraði, sem jók tekjur bænda. Breyting varð á samsetningu býlanna, bæði framleiðslu þeirra og stærð.[4]

Höggið minna en búist var við

Þegar fyrst var ráðist í kerfisbreytingar í nýsjálenskum landbúnaði var talið að um 20% bænda myndu hætta búskap vegna breyttra aðstæðna. Kynntir voru til sögunnar skammtímastyrkir sem runnu beint til bænda, óháð framleiðslu, sem töldu sig geta staðið undir framleiðslu við þáverandi heimsmarkaðsverð eftir aðlögunartímann. Þeim bændum sem töldu framleiðslu sína ekki arðbæra án styrkveitinga til lengri tíma var boðið svokölluð „útgöngugreiðsla“ (e. exit package). Flutningskostnaður, styrkur til húsnæðis- og búslóðakaupar var veittur sem og stuðningur við atvinnuleit.

Spár stjórnvalda reyndust of svartsýnar því aðeins um 1% bænda tóku „útgöngugreiðsluna“ og um 5% bænda skildu við landið sitt fyrstu árin eftir afnám styrkjanna. Fjöldi gjaldþrota reyndist ekki mikið hærri en regluleg gjaldþrot bænda áður fyrr. Í mörgum tilvikum höfðu bændur verið í miklum rekstrarvandræðum þá þegar og flýtti breytingin því aðeins fyrir erfiðu en óhjákvæmilegu ferli. Einnig bauðst bændum fjárhagsaðstoð sökum hækkandi lánabyrði, því verð á landareignum lækkaði samhliða afnámi styrkjanna og vextir voru á þessum tíma í hæstu hæðum á Nýja-Sjálandi vegna óðaverðbólgu.[5]

Greinin gjörbreytt í dag

Framleiðni stórjókst í nýsjálenskum landbúnaði árin eftir afnám styrkja. Bændur brugðust við tekjuskellinum fyrstu árin með því að minnka útgjöld og notkun á áburði. Tekjufallið gekk að miklu leyti til baka örfáum árum síðar þegar heimsmarkaðsverð á kinda- og nautakjöti hækkaði og nýsjálenski gjaldmiðilinn veiktist. Í mörgum tilfellum hækkuðu tekjur umfram það sem þekktist á tímum styrkja. Afnám innflutningstolla hafði mikil áhrif á nýsköpun í greininni þar sem aukið vöruúrval ýtti undir samkeppni sem innlendir bændur þurftu nú að horfast í augu við. [6] Fáir Nýsjálendingar geta hugsað sér að snúa kerfisbreytingunum við í dag.[7]

Ríkisstuðningur til nýsjálenskra bænda er í dag með þeim lægstu meðal OECD ríkja, eða 0,3% af landsframleiðslu samkvæmt nýjustu skýrslu stofnunarinnar frá því í júní 2017. Þeir styrkir sem eftir sitja falla að mestu leyti undir almennar styrkveitingar, óháð framleiðslu, með áherslu á nýsköpun, endurmenntun og tækniþróun í landbúnaði. Til samanburðar situr Ísland í einu af efstu sætunum, þar sem styrkir til landbúnaðar nema um 1,2% af landsframleiðslu, fjórfalt hlutfall Nýsjálendinga. Stærstur hluti slíkra greiðslna eru framleiðslutengdar. Ef nánar er rýnt í tölurnar kemur í ljós að Ísland er í næstefsta sæti hvað varðar þá styrki sem eru taldir hvað mest „markaðstruflandi“ af OECD. Líklegra er að framleiðsla sé ekki í takt við eftirspurn þegar slíkar styrkveitingar eru til staðar og hafa greiðslurnar því neikvæð áhrif á heilbrigð viðskipti með vörurnar samkvæmt OECD. Ef litið er til nýsköpunar sést að af þeirri styrkveitingu sem ekki er framleiðslutengd fer hvað minnstur hluti til nýsköpunar hér á Íslandi samkvæmt mati OECD. Nýsjálendingar sitja hér mjög ofarlega.[8]