Norska fasteignafélagið Fredensborg, sem nýverið keypti 74% hlut í Heimavöllum, hefur farið fram á það við stjórn Heimavalla að boðað, verði til stjórnarkjörs í félaginu og stjórnarmönnum fækkað úr fimm í þrjá. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar sem send var inn um helgina.

Í tilkynningunni segir að eigendur 5% hluta í Heimavöllum geti farið fram á hluthafafund. Því hafi beiðnin verið samþykkt og verði haldinn á næstu þremur til fjórum vikum.

Fredensborg er í eigu Norðmannsins Ivar Tollefsen, sem er stærsti íbúðaeigandi Norðurlandanna í gegnum Fredensborg og tengd félög. Alls telja íbúðir í eigu samstæðunnar um 95 þúsund. Tollefsen er 804. ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes.

Sjá einnig: Eigandi Heimavalla efnaður ævintýramaður

Fredensborg kom fyrst inn í hluthafahópinn í janúar þegar félagið keypti ríflega 7% hlut í Heimavöllum í janúar. Fredensborg bauð ekki fram eigin fulltrúa í stjórn fyrir stjórnarkjör sem fór fram á aðalfundi Heimavalla í mars.

Í mars gerði Fredensborg stærstu hluthöfum félagsins tilboð sem flestir samþykktu. Þann 6. apríl gerði Fredensborg öðrum hluthöfum í Heimavöllum yfirtökutilboð sem þeir hafa til 15. júní til að taka afstöðu til.

Fredensborg hefur gefið út að stefnt sé að því að afskrá Heimavelli úr Kauphöll Íslands.