Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði í Háskóla Íslands, kallar eftir því að stjórnvöld nýti tækifærið sem fylgja muni samdrætti á umferð um Keflavíkurflugvöll og marki stefnu í ferðamannamálum til framtíðar. „Ef það á að koma eitthvað gott út úr þessu er það kannski að stjórnvöld settust niður og veltu fyrir sér ferðamannapólitíkinni sinni. Núna sé ég að Isavia fer í símann og athugar hvort þau geti ekki fengið flugfélög til að fljúga inn,“ bendir Þórólfur á.

„Er ekki rétt að menn staldri aðeins við og velti fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að flytja hérna tíu milljónir farþega til að fá tvær milljónir inn. Borga kannski með hverjum og einum sem eru bara í að fara í gegnum flugvöllinn. Það hljómar ekkert mjög skynsamlega. Á að keyra þetta áfram sem tengiflugvöll og á að stækka og að það verði pláss fyrir 20-30 milljónir farþega á ári,“ spyr Þórólfur.

„Mér finnst að stjórnvöld eigi að koma að þeirri ákvörðun en ekki bara þeir sem hafa fengið það vald í hendurnar með skipunarbréfi. Þetta er stór pólitísk ákvörðun. Spurningin er hvers konar ferðamannaland viljum við vera? Viljum við vera ferðamannaland þar sem fólk kemur og leigir eitt stykki Yaris, og svo setjast fimm stykki inn í hann og keyra austur að Breiðamerkursandi og snúa við. Þannig höfum við verið að keyra stóran hluta af þessu undanfarið. Er það sniðugt?“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .