Neytendasamtökin skora á Almenna innheimtu ehf. að stöðva innheimtu á smálánaskuldum sem byggja á ólögmætum lánum. Fré þessu er greint í frétt á vef Neytendasamtakana.

"Fyrir liggur að vextir á smálánum eru margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það eru lántakendur krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum og ekkert virðist fá stöðvað innheimtufyrirtækið sem hefur tekið að sér að innheimta þessi ólöglegu lán," segir í fréttinni.

"Fyrirtækinu virðist fyrirmunað að senda lántakendum skýra sundurliðin á kröfum skipt niður í lánsupphæð, vaxtakostnað og innheimtukostnað þrátt fyrir fjölda beiðna þess efnis. Fyrirtækið gefur sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar sem lánveitendur eiga þó skýlausan rétt á. Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt."