Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður félagsins Frigus II ehf. sem skilaði næsthæsta tilboðinu í hlut ríkisins í Klakka ehf., segir að jafnræðis hafi ekki verið gætt í söluferlinu.

Forsvarsmenn félagsins Frigus II ehf. hafa sent Fjármálaeftirlitinu bréf, þar sem þess er krafist að sala á hlutabréfum í Klakka ehf. verði stöðvuð. Sala Lindarhvols, félags sem annast umsýslu, fullnustu og sölu á þeim eignum sem ríkið fékk sem stöðugleikaframlög slitabúa bankanna, á 17,7% hlut ríkisins í Klakka hefur sætt nokkurri gagnrýni og hefur hún einkum komið frá Frigus II.

Félagið var með næsthæsta tilboðið í eignarhlut ríkisins í Klakka, en forsvarsmenn þess segja að svo miklar brotalamir hafi verið á söluferlinu að FME beri að stöðva söluna. Á þar bæði við um sölu Lindarhvols á áðurnefndum 17% hlut í Klakka, sem og sölu Glitnis holdco ehf. á 11,6% hlutafjár í Klakka.

Krafan um stöðvun sölunnar byggir í einföldu máli á þremur stoðum. Í fyrsta lagi því að tilboðsgjafar hafi ekki setið við sama borð í aðdraganda sölunnar, þ.e. að einn tilboðsgjafi hafi haft aðgang að meiri og ítarlegri upplýsingum en aðrir.

Þá vilja forsvarsmenn Frigus II meina að atburðarásin í tilboðsferlinu gefi tilefni til að ætla að upplýsingar um tilboð þeirra hafi borist öðrum tilboðsgjafa, sem hafi í kjölfarið hækkað sitt tilboð. Í þriðja lagi vilja þeir meina að formreglur hafi verið brotnar hvað varðar framkvæmd útboðsins.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .