Sjö þingmenn, með Björk Vilhelmsdóttur í broddi fylkingar, hafa lagt fram tillögu þess efnis að betur verði spornað við starfsemi veitingastaða sem bjóða nektardans.

Óheimilt er að bjóða upp á nektardans á veitingastöðum, en flutningsmenn þingsályktunartillögunnar telja að þrátt fyrir bann við nektardansi sé enn hægt að kaupa aðgang að fáklæddum konum undir því yfirskini að þar fari ekki fram einkadans heldur kampavínsdrykkja og spjall undir fjórum augum.

„Þetta er að sjálfsögðu fráleitt að mati flutningsmanna og nauðsynlegt að koma í veg fyrir að veitingastaðir geti selt aðgang að starfsfólki sínu í einkarýmum, jafnvel með sérstöku lagaákvæði þar um, enda vandséð að þörf sé fyrir eðlilega veitingastarfsemi að selja aðgang að fáklæddu starfsfólki í einkarýmum,“ segir í tillögunni.