*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 1. apríl 2016 13:30

Vilja stofna gífurstóran olíusjóð

Sádí-Arabar vilja stofna tveggja billjóna dala olíusjóð, þann stærsta í heiminum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Prins Sádí-Arabíu, Mohammed bin Salman, lýsti því yfir í fimm klukkustunda löngu viðtali að ríkið hygðist stofna til tveggja billjón dollara olíusjóðs. Sjóðurinn yrði sá stærsti sinnar tegundar, en áætlað fjármagn hans dygði til að festa kaup á fjórum stærstu fyrirtækjum heims.

Sjóðinn vilja Sádí-Arabar stofna til að undirbúa sig fyrir lok gullaldar olíunnar. Þjóðin hefur byggt ríkidæmi sitt algerlega á olíuleit og sölu, og ef heimurinn snýr sér að annars konar og sjálfbærari orkugjöfum verða Sádí-Arabar að snúa sér að annars konar iðnaði.

Saudi Aramco, stærsta olíufyrirtæki landsins, er í ríkiseigu eins og stendur, en fyrsta skrefið að stofnun fyrrnefnds sjóðs er að selja hluti ríkisins í Aramco. Prinsinn býst við að það gæti hafist á næsta ári, en eins og áætlanir standa verða rétt um 5% seld til almennings, í það minnsta til að byrja með.

„Við viljum að hagkerfið verði tiltölulega óháð olíu innan tuttugu ára,” sagði bin Salman í viðtalinu. „Með því að selja hlutina í Aramco getum við gert fjárfestingar að megintekjulind sádí-arabíska ríkisins í stað olíuvinnslu og -leitar."

Olíuverð hefur fallið í kjölfar viðtalsins, en einnig minntist prinsinn á að Sádí-Arabía myndi aðeins draga úr framleiðslu sinni ef grannaþjóðir hennar - sérstaklega Íran - gerðu slíkt hið sama. Brent hráolía er niður um 3% og West Texas um 2,84%.

Tvær billjónir Bandaríkjadala er fremur há upphæð. Billjón (e. trillion) er þúsund milljarðar - svo útleggja má upphæðina sem tvö þúsund milljarðar Bandaríkjadala. Miðað við gengi krónunnar gegn dollar, sem er 122 krónur við skrif fréttarinnar, má því segja að um sé að ræða rúmlega 244 þúsund milljarða íslenskra króna. Upphæðin er jafngild 133-faldri landsframleiðslu Íslendinga.