Lagt var á Alþingi í dag frumvarp um stofnun lagaskrifstofu á vegum Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Flutningsmenn eru þau Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, auk fimm annarra þingmanna Framsóknarflokksins.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að á liðnum árum hafi það nokkrum sinnum gerst að löggjafarvaldið hafi samþykkt lög sem ekki hafa verið nægilega ígrunduð og vönduð. Sum hafi beinlínis gengið gegn stjórnarskrá eða haft aðra lagatæknilega ágalla. Tilfellin séu áberandi fleiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Mikilvægt sé að tryggja gæði lagasetningar og byggja upp traust gagnvart löggjafarvaldinu og sé stofnun lagaskrifstofunnar liður í því.

Slök lagasetning kostnar samfélagið mikið

Vigdís Hauksdóttir ræddi um lagaskrifstofuna í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið seint í ágúst í fyrra. Þar rifjaði hún m.a. upp að hún hafi lagt frumvarp um málið á hverju þingi síðastliðin fjögur ár. Hún vonaðist jafnframt til að með stofnun skristofunnar myndi lagasetning á Alþingi batna til muna.

„Slök lagasetning hefur svo mikinn kostnað fyrir samfélagið í för með sér vegna réttaróvissu. Löggjafinn á að geta sett svo góð lög að helst þurfi ekki að takast á um þau fyrir dómstólum.," sagði hún og benti á að hefði lagaskrifstofan verið komin á laggirnar þegar frumvarp um gengismál sem kennt er við Árna Pál Árnason var í vinnslu þá hefði skrifstofan sent það aftur til ráðuneytisins og látið vinna það betur.

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið viðtalið við Vigdísi í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .