Þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um stofnun Landsiðaráðs.

Þannig er lagt til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að undirbúa lagasetningu um hlutverk, skipan og starfssvið siðaráðs á landsvísu: Landsiðaráðs. Starfshópurinn skili svo tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. október næstkomandi og ráðherra leggi þá fram frumvarp til laga um Landsiðaráð á næsta löggjafarþingi.

„Augljós þörf“

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að sökum mikilvægis þess að siðfræðilegra sjónarmiða sé gætt við ákvarðanir, stefnumótun og eftirfylgni hvarvetna á opinberum vettvangi sé lagt til að komið verði á fót sérstöku siðaráði á landsvísu. Ekkert slíkt ráð starfi á Íslandi en augljós þörf sé fyrir það.

Segir enn fremur að margt í samfélags- og tækniþróun okkar tíma verði til þess að auka vægi siðferðilega sjónarmiða við ákvörðunartöku. Hraðfara þróun í líf- og erfðatækni og læknisfræði valdi því að fram komi í sífellu nýjungar sem ögri viðteknum sjónarmiðum og breyti viðmiðunum og viðhorfum til siðrænna málefna með áhrifum sínum á einstaklinga og samfélag.

Siðferði ábótavant í aðdraganda bankahruns

Í greinargerðinni segir einnig að víðar sé þörf siðfræði en í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Það verði meðal annars ljóst við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, þar sem fjallað sé um og lagt mat á siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Niðurstaða höfunda hafi verið að starfsháttum og siðferði hefði víða verið ábótavant í íslensku samfélagi í aðdraganda bankahrunsins.

„Ýmis málefni sem ætla má að tengist Landsiðaráði heyra undir forsætisráðuneyti, svo sem almenn stjórnarfarsmálefni, stjórnsýslulög, upplýsingalög, siðareglur ráðherra og starfsmanna Stjórnarráðs Íslands og Vísinda- og tækniráð, sbr. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013. Er það ástæða þess að gerð er tillaga um að forsætisráðherra skipi starfshóp til að undirbúa stofnun Landsiðaráðs,“ segir í greinargerðinni.