Greiningardeild Landsbanka Íslands telur æskilegt að Seðlabankinn stígi í náinni framtíð nýtt skref til að tryggja aðgang að lausafé í erlendri mynt og telur stóra lántöku og til lengri tíma, þ.e. skuldabréfaútgáfu, verða líklegast það sem til þurfi.

Eins og fram kom í Vegvísi Landsbankans í morgun er bent á að ríkissjóður hafi gefið út erlenda víxla fyrir sem svarar 25 milljarða króna í júlí og sé lánið varðveitt sem hluti af gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands, en hann var rúmlega 227 milljarðar í júlílok.

Bent er á að forðinn hafi ekki verið stækkaður fyrr en nú þó svo að ýmsir aðilar, þar á meðal matsfyrirtækin Moody's og Fitch, hafi lagt mikla áherslu á stækkun hans. Hafi í því sambandi verið tilteknar upphæðir allt að tveimur milljörðum evra, eða um 250 milljarða íslenskra króna.

„Hæfilega stór gjaldeyrisforði er mikilvægur íslensku fjármálakerfi til þess að Seðlabankinn geti sinnt hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara í þeim myntum sem bankarnir starfa. Íslensku bankarnir eiga mikið af erlendum eignum og þarf Seðlabankinn því að hafa tryggt aðgengi að lausu fé í erlendri mynt til að sinna því hlutverki að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi,“ segir meðal annars í Vegvísi.

„Stórt skref í þá átt var stigið með gjaldmiðlaskiptasamningum Seðlabanka Íslands við norræna seðlabanka um miðjan maí en að okkar mati er annað skref af svipaðri stærð í náinni framtíð æskilegt. Víxlaútgáfan nú gefur góð fyrirheit en lántaka af stærra sniði og til lengri tíma (skuldabréfaútgáfa) er líkast til það sem til þarf.”