Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að styðja bráðabirgðastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna - gegn því að þingkosningar fari fram í vor. Þetta var ákveðið á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins útiloka Vinstri grænir ekki þann kost að mynda bráðabirgðastjórn með  Samfylkingu -  verði boðað til kosninga sem fyrst.

Boltinn í þessum efnum er því hjá Samfylkingunni.

Svohljóðandi yfirlýsing hefur borist frá Framsóknarflokknum:

„Á fundi þingflokks framsóknarmanna nú síðdegis veitti þingflokkurinn formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fullt umboð til að bjóða forsvarsmönnum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að mynda minnihlutaríkisstjórn flokkanna tveggja sem varin yrði vantrausti af hálfu Framsóknarflokksins á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar.

Þetta er háð því að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins."