Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð. Renna þarf styrkari stoðum undir peningastefnuna með traustri hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum. Kemur þetta m.a. fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru að kynna á blaðamannafundi á Laugarvatni.

Þar segir að ábyrg efnahagsstjórn sé forsenda velferðar, öflugs heilbrigðis- og menntakerfis, löggæslu og annarrar grunnþjónustu. Agi og jafnvægi í ríkisfjármálum gegni lykilhlutverki við að tryggja stöðugleika, lægri vexti og litla verðbólgu.

„Það er forgangsverkefni að yfirfara áætlun í ríkisfjármálum með hliðsjón af nýjustu upplýsingum um stöðu efnahagsmála og að setja raunhæf markmið um heildarjöfnuð í ríkisfjármálum. Markvisst þarf að vinna að því að lækka skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Ný ríkisstjórn leggur áherslu á að skapa skilyrði fyrir hagvöxt sem knúinn verði áfram af auknum útflutningi og bættri framleiðni hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Með aukinni framleiðni í opinberri þjónustu megi nýta fé betur og styrkja þannig enn frekar grundvöll velferðarþjónustunnar.

„Tekin verða upp bætt vinnubrögð við fjárlagagerð og horft til lengri tíma til að bregðast við stöðu ríkissjóðs og tryggja skynsamlega nýtingu á fjármagni. Áhersla verður lögð á fernt í því sambandi: Í fyrsta lagi þarf að gera aukinn greinarmun á innlendum útgjöldum og þeim sem renna úr landi, í öðru lagi að aðgreina fjárfestingu og útgjöld og í þriðja og fjórða lagi að meta annars vegar langtímaáhrif og hins vegar heildaráhrif fjárlaga.“

Þá verður skipaður aðgerðahópur sem tekur til skoðunar ríkisútgjöld með það að markmiði að hagræða og forgangsraða og auka skilvirkni stofnana ríkisins.