Veitingastaðurinn Nostra verður opnaður á næstunni á Laugarvegi 59, á annarri hæð í Kjörgarði. „Við stefnum að því að vera meðal þeirra bestu í Skandinavíu,“ segir Hörður Ólafsson, markaðsstjóri Nostra, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann er einn af stofnendum Nostru ásamt Örnu Waage og Natöschu Fischer.

Hann segir að boðið verði upp á samsetta smáréttaseðla. „Það þýðir að þú ferð í fjögurra, sex, eða níu rétta kvöldverð. Við erum að hanna upplifun fyrir gestina okkar og förum með þá í matarferðalag sem kemur skemmtilega á óvart. Það er best að lýsa þessu sem norrænum áhrifum í bland við franskar matarhefðir. Áhersla er lögð á lífrænt ræktað hráefni sem við fáum úr nálægu umhverfi og markmiðið er að nýta það sem best. Við erum í góðu samstarfi við ræktendur og bændur. Við erum sjálf að rækta eigið hráefni í gróðurrými inni á veitingastaðnum, sem fer beint í matargerðina,“ segir Hörður.

Hann bætir við að starfsmenn fari reglulega út í náttúruna í hráefnisleit til þess að geta nýtt það ferskasta úr náttúrunni hverju sinni,“ segir hann.

Kanónur í hverju horni

Auk Harðar, Natöshu og Örnu eru eigendur Nostra Lilja Harðardóttir, Ólafur Jónsson og Jóhanna Jakobsdóttir. „Ég hef tekið þátt í veitingarekstri og fyrirtækjarekstri áður og er gífurlega ánægður með þetta teymi sem ég vinn með. Það eru kanónur í hverju horni,“ segir Hörður og telur upp nokkra meðlimi starfsliðsins:

„Hrafnkell Ingi sem var áður á Forréttabarnum, ásamt Láru Kristins sem var á Sushi Social sjá um barinn hjá okkur; þau eru algjörir snillingar. Yfirþjónar eru Tómas Beck og Björn Clifford sem áður voru á Kopar og Grillmarkaðnum ásamt fleiri góðum stöðum. Svo erum við með Árna Kristjáns, einn reynslumesta vínþjón landsins, með yfir 35 ára reynslu, fróðari vínspekúlant er varla hægt að finna. Enn fremur er það Carl Frederiksen sem kemur frá Danmörku, hann hefur unnið á nokkrum stöðum sem hafa verið í Michelin Guide. Einnig verður hjá okkur Einar Björn sem var aðstoðaryfirkokkur hjá Dill. Við erum svakalega þakklát og ánægð með fólkið okkar,“ bætir Hörður við.

Gæðin skipta höfuðmáli

Hörður segir að það gangi hægt og rólega að gera staðinn tilbúinn. „Setningin „Góðir hlutir gerast hægt“ er mjög viðeigandi. Þetta er stórt verkefni og mikil framkvæmd. Það er margt fólk sem kemur að þessu og þá skiptir verkstjórnin gífurlega miklu máli. Þegar verið er að standsetja veitingahús eins og okkar er það mikil nákvæmnisvinna. Hjalti hjá HR Raf tók að sér verkstjórnina og hannaði allt rafmagnið fyrir okkur. Þessi herramaður er einn mesti fagmaður sem ég hef kynnst,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .