Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) vill að tekið verði harðar á innflutningi og sölu á falsaðri merkjavöru og eftirlíkingum á vörum frá Kína. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins, um viðskipti og efnahagsmál, vandann liggja í því að ekki sé heimild í tollalögum til að gera falsaða merkjavöru upptæka í póstsendingum einstaklinga. Heimildin nái eingöngu til þess þegar varan er flutt inn í atvinnuskyni.

Andrés segir að sprenging hafi orðið á innfluttri merkjavöru frá Kína og nefnir hann sérstaklega kínversku sölusíðuna Aliexpress . „Það er gífurlegt magn af vörum sem eru að koma til landsins með þessum hætti nú um þessar mundir,“ segir hann. Blaðið segir um 6.500 sendingar hafa komið til landsins á mánuði í gegnum síðuna.