Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn sem hann segir svar við ákalli við auknu persónukjöri að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

„Það hefur verið kvartað yfir því að sum hverfi eigi engan borgarfulltrúa. Með þessu yrði tryggt að hvert hverfi fengi sinn fulltrúa,“ segir Kjartan um tillögu sína sem á sér meðal annars fyrirmynd í borgarstjórn Winnipeg í Kanada.

Tillaga Kjartans leggur til að hafin yrði endurskoðun á fyrirkomulagi borgarstjórnarkosninga með það að markmiði að binda kjör borgarfulltrúa við ákveðin hverfi. Kjartan telur þó óraunhæft að breyta fyrirkomulaginu fyrir næstu kosningar, sem fram fara í vor, enda ljóst að fyrirkomulaginu yrði ekki breytt nema með lagabreytingu.

Eðlilegt væri að fara sér hægt að sögn Kjartans sem ekki hefur kannað stuðning þingmanna við tillöguna en njóti hún mikils stuðning innan borgarstjórnar telji hann líklegt að Alþingi verði við henni.

Kjartan hefur ekki áhyggjur af því að fyrirkomulagið hafi í för með sér einokun tveggja eða fárra flokka en í flestum löndum með  í einmennings-, eða tvímenningskjördæmafyrirkomulagi er að jafnaði stöðugra stjórnarfar og færri flokkar, sem jafnframt starfa á breiðari grunni en hérlendis. Slík kerfi hafa verið útfærð er á ýmsan hátt og má nefna lönd eins og Ástralíu, í Nýja Sjálandi, Bretland, Bandaríkin, Síle þangað til nýlega og Kanada sem sum hver tryggja á einn eða annan hátt að atkvæði falli ekki dauð.

Kosningabaráttan gæti þess í stað orðið persónulegri og menn boðið fram í sínu hverfi án þess að vera endilega á vegum stjórnmálaflokks að sögn Kjartans, en hann flytur tillögu sína um að skipta borginni upp í kjörhverfi þannig að hvert hverfi hefði einn borgarfulltrúa í borgarstjórn í dag.