Fjármálaeftirlitið leggur til að tæknilegar útfærslur vegna útreikninga á varfærniskröfum og gangaskil vegna þeirra verði teknar upp á ensku hér á landi ef frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki verður samþykkt. Þetta kemur fram í umsögn FME um frumvarpið en það snýst að mestu um innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins um fjármálafyrirtæki, CRD IV, sem byggir á Basel III staðlinum.

Í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um tillögu FME segir að hún sé fyrst og fremst lögð fram til að bregðast við því vandamáli sem nú er uppi varðandi það að ekki er hægt að vísa til birtrar íslenskrar útgáfu af þessum tæknilegu útfærslum í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi, enda komast um þessar mundir engar tilskipanir eða reglugerðir á sviði fjármálaþjónustu inn í EES-samninginn.