Fulltrúar skóla, atvinnulífs og stjórnmála hafa margir hverjir talað fyrir því að tengja nám við fyrirtækin, þó enn virðist ekki hafa fundist heppilegar leiðir til að ná settu marki. Samtök atvinnulífsins ganga svo langt að spá brotthvarfi stórfyrirtækja úr landinu verði ekki brugðist við áherslubreytingum í atvinnulífinu með breytingu á menntakerfinu.

„Fyrirtækin munu líta á heiminn sem markaðssvæði fyrir afurðir sínar og vinnuafl, nýta tæknina og taka upp víðtækt samstarf án tillits til staðsetningar. Fyrirtækin verða að byggjast upp með viðvarandi þekkingu þó að fólk komi og fari og við það verður menntakerfið að ráða,“ segir í skýrslu SA.

Vanda á lægri stigum skólakerfisins setja samtökin í samhengi við meiri virðingu bóknámsgreina, skort á raungreinamenntuðum kennurum og fleira. „Bæta þarf kennaramenntun og endurmennta kennara til að gera þá betur hæfa til að kenna raunvísindi. Of algengt er að þeir sem velja sér kennaranám hafi að baki takmarkaða þekkingu í raungreinum og óttist þá kennslu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.