Áformað er að takmarka þá fjárfestingarkosti sem aflandskrónueigendur geta fjárfest fyrir hér á landi. Í frétt Morgunblaðsins segir að nú standi yfir vinna í Seðlabankanum varðandi breytingar á áætlun um afnám gjaldeyrishafta og á meðal þess sem bankinn leggi til sé að gera aflandskrónueigendum óheimilt að fjárfesta í styttri skuldabréfaflokkum – heldur aðeins í lengri ríkisskuldabréfum.

Aflandskrónueigendur á Íslandi, en krónueign þeirra nemur um 400 milljörðum króna, hafa verið stórtækir kaupendur á skuldabréfum í íslenskum krónum á umliðnum árum, þá einkum og sér í lagi í styttri skuldabréfum ríkisins. Með því að takmarka möguleika þeirra til fjárfestinga í öðrum skuldabréfum en þeim sem eru til lengri tíma væri hægt að draga úr skammtímaútflæði gjaldeyris. Erlendum aðilum er heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir þær krónur sem falla til vegna vaxta og verðbóta af slíkum skuldabréfum.

Heimildir Morgunblaðsins herma einnig að verið sé að leita leiða til að auka þátttöku í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans með því að gera breytingar sem miða að því að auðvelda fyrirtækjum með erlenda fjármögnun að taka þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans.