365 hf., Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa stefnt Sýn hf. og stjórnendum félagsins til greiðslu skaðabóta. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Sýnar sem birt var rétt í þessu.

Krafan beinist að Sýn, forstjóranum Heiðari Guðjónssyni og öllum stjórnarmönnum félagsins. Hver aðili fyrir sig krefst milljarðs króna og samanlögð dómkrafa því þrír milljarðar króna. Ekki kemur fram á hvað grunni krafan byggir eða hvort um in solidum kröfu sé að ræða eður ei. Málið hefur enn ekki verið þingfest.

Áður hefur verið sagt frá því að Sýn hafi stefnt 365 hf., Ingubjörgu og Jóni Ásgeiri til greiðslu skaðabóta vegna meintra brota á kaupsamningi er Sýn keypti 365 miðla. Fréttablaðið varð eftir í eigu Ingibjargar en í samningnum var klausa um samkeppnisbann. Fól hún meðal annars í sér að Fréttablaðið mátti ekki byrja með sjónvarpsútsendingar eða útvarpsþjónustu en Fréttablaðið byrjaði meðal annars með hlaðvarp og telur Sýn það hafa brotið gegn samningnum.

Sýn krefur 365 um 1,7 milljarða króna vegna þessa en um er að ræða févíti, fimm milljónir á dag yfir 340 daga tímabil. Ingibjörg og Jón Ásgeir höfðu skuldbundið sig persónulega til greiðslu sömu fjárhæðar samkvæmt sérstakri yfirlýsingu um efnið.

Ekki náðist í Heiðar Guðjónsson, forstjóra Sýnar, við vinnslu fréttarinnar.