Sprotafyrirtækið Quest Portal þróar fjarspilunarvettvang fyrir spunaspil, sem gera mun áhugasömum kleift að spila spunaspil á borð við Dungeons & Dragons augliti til auglitis í gegnum netið.

Um 80 milljónir spila spunaspil í dag, en hátt í helmingur mannkyns, um 3 milljarðar, spilar nú tölvuleiki. Stofnendurnir sáu því mikið sóknarfæri í að tengja þetta tvennt saman með þessum hætti.

Sjá einnig: Milljarður í fjarspunaspil

„Í dag eru allir að spila yfir Zoom eða Discord. Við vildum búa til sérhannað forrit fyrir þetta, enda áhuginn á spunaspilum farið ört vaxandi.“

Auðveldar samhæfingu og skapar stemningu

Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson framkvæmdastjóri Quest Portal telur spunaspilarana hæglega geta tífaldast í fjölda ef rétt er haldið á spilunum.

„Það er það sem við viljum gera með því að búa til forrit sem er sáraeinfalt í notkun og aðgengilegt bæði í síma og tölvu,“ segir Gunnar. Með því væri ein stærsta hindrun spunaspilunar, samhæfingarvandinn við að fá alla á sama stað á sama tíma, að miklu leyti úr sögunni.

Spilarar munu svo vitaskuld áfram stjórna ferðinni sjálfir þegar kemur að eiginlegri spiluninni, en Quest Portal mun hjálpa þeim að halda utan um hlutina og skapa rétta stemningu.

Meðal þess sem boðið verður upp á umfram hefðbundin fjarfundaforrit verða breytingar á rödd og útliti spilara, ýmiss konar umhverfishljóð, og viðmót til að halda utan um eiginleika þeirra söguhetja sem viðkomandi spilar sem.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins