Samtök upplýsingatæknifyrirtækja telja mikilvægt að útflutningstekjur vegna upplýsingatækni tífaldist hér á landi fram til ársins 2010 svo að greinin geti orðið raunveruleg stoð í afkomu landsins í framtíðinni. Útflutningstekjur upplýsingatækniiðnaðar eru um fjórir milljarðar nú en markmiðið er að útflutningurinn nemi 40?50 milljörðum króna árið 2010.

Upplýsingatækni er meðal annars mikilvæg útflutningsgrein annarra Norðurlanda og stendur undir stórum hluta verðmætasköpunar og nýrra starfa hjá háskólamenntuðu fólki. Þekkingariðnaður, þar á meðal upplýsingatækni, er því orðinn ein af helstu stoðum atvinnulífs nágrannalanda okkar og því mikilvægt að vera ekki eftirbátar þeirra.

Sem dæmi má nefna að útflutningur vegna upplýsingatækni hefur meira en fjórfaldast í Danmörku á 10 árum og er orðinn ein stærsta útflutningsgrein landsins. Þá er útflutningur í kringum upplýsingatækni í Danmörku orðinn meiri en útflutningur olíuiðnaðar ef tekið er mið af fullunnum framleiðsluvörum, að því er fram kom í viðskiptablaðinu Børsen á síðasta ári. Útflutningstekjur upplýsingatækni í Danmörku voru um 273 milljarðar ísl. króna af rúmlega 4.800 milljarða króna heildarútflutningi, eða um 5,7%, að sögn blaðsins.

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja telja að Ísland hafi alla burði til þess að fylgja öðrum Norðurlöndum í aukinni verðmætasköpun og útflutningi á upplýsingatækni. Samtökin efna til ráðstefnu (Þriðja stoðin ? Verður upplýsingatækni þriðja stoðin í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010?) á Nordica hotel 25. janúar þar sem dregin verður upp mynd af stöðu, tækifærum og framtíðarsýn upplýsingatækniiðnaðarins hér á landi. Þar verða settar fram tillögur um hlutverk upplýsingatækniiðnaðarins í framtíðar verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Á ráðstefnunni ætlar Frans Clemmesen, sviðsstjóri í ráðuneyti vísinda og tækni í Danmörku, að fjalla um markvissa uppbyggingu og stefnu Dana í upplýsingatækniiðnaði. Uppbygging á þessu sviði hefur orðið til þess að iðnaðurinn er orðinn ein helsta útflutningsgrein Danmerkur. Þá hyggst Wilfried Grommen, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Microsoft í Evrópu og einn æðsti yfirmaður fyrirtækisins í álfunni, ræða um möguleika Íslands, sóknarfæri og samanburð við önnur lönd. Einnig ræðir Ingvar Kristinsson, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, um stöðu upplýsingatækniiðnaðar hér á landi. Jafnframt hyggst hann fjalla um hvort upplýsingatæknin sé stóra, vannýtta tækifærið til öflugrar útrásar sem getur myndað þriðju stoðina í gjaldeyristekjum og verðmætasköpun þjóðarinnar.