*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 2. júlí 2015 19:33

Vilja tryggja rekstraröryggi flugvallar í Vatnsmýri

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt meðan aðrir kostir eru skoðaðir.

Ritstjórn
Reykjavíkurflugvöllur úr lofti.
Haraldur Guðjónsson

Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er lögð áhersla á að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt í núverandi mynd sem miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs á meðan aðrir kostir eru rannsakaðir betur.

Skýrsla Rögnunefndarinnar svokölluðu var kynnt á fundi borgarráðs í dag, en hún skoðaði flugvallarkosti á og í kringum Höfuðborgarsvæðið. Ekki var tekið til umræðu í nefndinni áframhaldandi innanlandsflugvöllur í Vatnsmýri né að flytja innanlandsflug til Keflavíkur.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að sá kostur sem nefndin hallast helst að í Hvassahrauni þarfnist miklu meiri rannsókna áður en hægt er að skera út um raunhæfni þess kostar. Flugvöllur í Vatnsmýri sé eins og staðan er í dag eini raunhæfi kosturinn.