Mikilvægur þáttur í að auka sýnileika, í þeim tilgangi að skapa aukna sátt um fyrirtæki, er halda úti aðgengilegri vefsíðu fyrirtækisins. Þannig má opna fyrirtækið og veita viðskiptavinum og hagsmunaaðilum aðgang að gögnum og staðreyndum um það sem verið sé að gera. Þá skiptir skýr stefna stjórnenda miklu máli.

Þetta sagði Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, á fundi SKÝ í gær. Fjallað var um vefmál sem hluta af heildarstefnumótun á fundinum.

„Við viljum upplýsa eins mikið og við getum á vefnum okkar og í þeim búningi að fólk skilji það,“ sagði Magnús. Hann benti jafnframt á að nú mætti finna upplýsingar á síðu Landsvirkjunar um meðalverð seldrar raforku á hverju ári í samanburði við önnur lönd.