Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn á borgarráðsfundi í gær þar sem óskað er eftir öllum upplýsingum um undirbúning tillögu borgarstjórnar um að sniðganga vörur frá Ísrael.

„Óskað er eftir öllum upplýsingum um feril málsins eins og fundargerðum, minnisblöðum, útreikningum, áhættumati, kynningaráætlunum og ábyrgðaraðilum ásamt áliti sem unnið var af innkaupasérfræðingum á skrifstofu borgarlögmanns en borgarstjóri upplýsti í viðtali við Viðskiptablaðið 18. september að slíkt álit hafi verið unnið,“ segir í fyrirspurninni.

Þá óska borgarfulltrúarnir eftir upplýsingum um það til hvaða sérfræðinga, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga var leitað í undirbúningi tillögunnar. Þá er óskað eftir því að upplýst verði hvernig samráði var háttað.