Norska fjármálaeftirlitið hefur sent spurningalista til forsvarsmanna Kaupþings og Exista vegna stöðutöku þeirra í norska tryggingafélaginu Storebrand. Að því er kemur fram í norskum fjölmiðlum vill fjármálaeftirlitið fá upplýsingar um það hverskonar samstarf er á milli fyrirtækjanna.

Í frétt netmiðilsins 24.no kemur fram að svörin geta ráðið úrslitum um það hvort Íslendingar fái að halda hlut sínum.

Fjármálaeftirlitið vill fá svör við því hvort eitthvert samkomulag sé á milli Kaupþings og Exista um kaupin í Storebrand. Í öðru lagi vill eftirlitið vita hvort einhverjir skriflegir samningar eru á milli aðila. Í þriðja lagi vill eftirlitið vita hvort Exista, sem stærsti hluthafi Kaupþings, komi að ákvörðunum um fjárfestingar Kaupþings að einhverju leyti. Einnig eru Íslendingarnir krafðir svara um það hvort þeir hafi samstarf, beint eða óbeint, um stærri fjárfestingar sínar.