„Það hafa nýverið komið fram opinberar upplýsingar um greiðslu til einstakra slitastjórna. Okkur fannst eðlilegt að þær upplysingar liggi fyrir um alla,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Nefndin hefur óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið taki saman upplýsingar um greiðslur til allra slitastjórna fallinna banka og fjármálafyrirtækja og félaga í eigu slitastjórnarfólks. Slitastjórnirnar eru þrettán, að sögn Helga.

Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði um greiðslu til slitastjórna í morgun og ræddi þar við Unni Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og aðstoðarmanni hennar.

Nefndin spurði Unni m.a. að því hvers vegna tímagjöld sem giltu fyrir skilanefndir árið 2008 hafi ekki gilt áfram um slitastjórnir.

„En það er ljóst að það eru kröfuhafarnir sjálfir sem eiga beina hagsmuni að málinu og geta þeir leitað til dómsstóla með kvartanir. Þeir hafa gert það," segir Helgi í samtali við vb.is og bætir við að nefndin búist við því að fá upplýsingar um greiðslur til slitastjórnanna á allra næstu dögum.

Nefndin ætlar að funda áfram um málið og hefur kvatt fulltrúa Seðlabankans á fund sinn í næstu viku.