Þrettán þingmenn hafa lagt fram beiðni á Alþingi um að utanríkisráðherra flytji þinginu skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og þau áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi.

Fyrsti flutningsmaður er Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, en aðrir flutningsmenn koma frá Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Í greinargerð með skýrslubeiðninni segir að full ástæða sé til að meta á hlutlægan hátt kosti og galla EES-samstarfsins fyrir Ísland, nú þegar um aldarfjórðungur er liðinn frá því að EES-samningurinn tók gildi í byrjun árs 1994. Staðfesting samningins hafi verið umdeild og enn eru skiptar skoðanir um árangurinn af þátttöku Íslands í EES-samstarfinu. Þá sé mikilvægt að bregða birtu á þær áskoranir sem framundan eru, sérstaklega hvað útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu varðar.

Jafnframt er í greinargerðinni vísað til úttektar sem norsk stjórnvöld gerðu á reynslu Noregs af aðild að samningum við Evrópusambandið. Þar hafi EES-samningurinn borið hæst og segir í greinargerðinni að alvarlegar spurningar hafi vaknað um skort á lýðræði og afali á fullveldi Noregs vegna EES-samningsins og Schengen-samvinnunnar.