Þingmenn úr Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki, Pírötum og Bjartri framtíð hafa lagt fram frumvarp sem miðar að því að hámarksrefsing fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni verði lækkuð úr tólf árum í tíu ár.

Björgvin G. Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en aðrir flutningsmenn eru Brynjar Níelsson úr Sjálfstæðisflokki, Helgi Hrafn Gunnarsson úr Pírötum og Róbert Marshall og Heiða Kristín Helgadóttir úr Bjartri framtíð.

Þungar refsingar ekki skilað árangri

Í greinargerð segir að þungar refsingar hafi ekki orðið til þess að neysla löglegra sem ólöglegra fíkniefna hafi dregist saman, heldur hafi hún þvert á móti aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Aftur á móti hafi þjóðir sem hafi tileinkað sér frjálslyndari stefnu í vímuefnamálum náð að draga úr neyslu.

Refsiramminn í fíkniefnamálum var útvíkkaður árið 2001, úr tíu árum í tólf ár, í kjölfar þess að upp hafði komist um talsverðan innflutning á e-töflum. Hæstiréttur nýtti jafnan mjög rúman hluta refsirammans í málum er vörðuðu innflutning á efninu um aldamótin.

Vilja endurskoðun á málaflokknum

Flutningsmenn frumvarpsins segja að refsistefna í fíkniefnamálum hafi gengið of langt og refsingar í málaflokknum séu of þungar. Þó að ekki sé kveðið á um það berum orðum í frumvarpinu eða greinargerð að refsingar verði lagðar af, segir í greinargerðinni að taka skuli stefnu stjórnvalda í fíkniefna- og forvarnarmálum til heildarendurskoðunar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að verð á nær öllum fíkniefnum hefði lækkað talsvert í úttekt sem var gerð á fíkniefnamarkaði.