Þótt margt sé enn á huldu hvað nýtilkynntan bálkakeðjuleik CCP varðar er greinilegt að Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri, hefur hugsað vel og lengi um verkefnið og nýtt áratugareynslu af hagkerfi EVE Online við þróun þess og mótun. Hann hefur því tröllatrú á nýja leiknum og bindur við hann miklar vonir og setur markið hátt.

„Til að byrja með stefnum við að því að ná svipaðri útbreiðslu og velgengni og EVE Online. Ef við ætlum að gera þetta þá hljótum við að stefna að því, verandi Íslendingar, að gera betur en frumgerðin,“ segir hann dularfullur og vísar þar ekki til hins upprunalega EVE Online, heldur íslenska hagkerfisins. „Við ætlum að verða stærri en smáríkið Ísland með sitt krónuhagkerfi.“

Vill helst toppa Svíþjóð

„Með því samfélagi sem við sköpuðum með EVE Online tókst okkur að toppa Ísland í mannfjölda fyrir nokkru síðan, en nú er komið að því að toppa þjóðarframleiðsluna,“ útskýrir hann, sem þó vekur hjá blaðamanni fleiri spurningar en það svarar. Spurður hvort hann eigi þá við að velta innan leiksins verði meiri en verg þjóðarframleiðsla svarar hann einfaldlega:

„Ja, það er ein möguleg niðurstaða. Ísland er opið hagkerfi. Við ætlum að búa til opið hagkerfi. Ég meina, það hlýtur að vera markmiðið að gera það stærra,“ segir Hilmar léttur og hálf ögrandi, eins og ekkert sé sjálfsagðara, og bætir við: „Í rauninni langar mig samt að verða stærri en Svíþjóð, en við skulum byrja á Íslandi.“

Nánar er rætt við Hilmar í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 23. mars. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.