Stefnt er að því að leggja fram í haust frumvarp sem takmarkar eignarhald einkaaðila á íslenskum orkufyrirtækjum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögfræðingar vinni nú að því innan stjórnarráðsins að útfæra slíkt frumvarp. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy geti átt þann 98,5% hlut í HS Orku sem fyrirtækið hefur þegar keypt og að tryggja að opinberir aðilar eigi meirihlutann í öllum íslenskum orkufyrirtækjum.

Skoða skaðabótaábyrgð

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, segir að ef reglum sé breytt eftirá þá verði skoðað hvort slíkt kalli fram skaðabótaábyrgð. „Ég hef ekki trú á því að það sé hægt að breyta reglum afturvirkt. Þeir lögfræðingar sem við höfum leitað til skilja málið þannig að það sé ekki hægt. Stjórnvöld hafa enda haft nægan tíma þegar sást í hvað stefndi með eignarhald í HS Orku í fyrra.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta Viðskiptablaði.