Aðskilja verður viðskiptastarfsemi breskra banka frá fjárfestingastarfsemi þeirra og girða vel utan um hana til þess að verja breska viðskiptabanka og innstæðueigendur fyrir áföllum á fjármálamörkuðum. Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu Vickers-nefndarinnar svonefndu um bankamál. Formaður nefndarinnar sagði í morgun að eitt helsta markmið tillagnanna væri að sjá til þess að skattgreiðendur þyrftu ekki að borga brúsann ef bankar lentu í vandræðum í framtíðinni og að reist væri kerfi þar sem bankar mættu falla með „öruggum“ hætti.

Vickers-nefndin, sem kennd er við formann sinn Sir John Vickers, er sjálfstæð nefnd um bankastarfsemi, sem skipuð var að bresku ríkisstjórninni í júni sl. til þess að skoða breska bankamarkaðinn í heild sinni í kjölfar fjármálakreppunnar. Þar má finna fjölda tillagna, en sú veigamesta lýtur vafalaust að aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingastarfsemi bankanna (þ.m.t. heildsölulánastarfsemi). Nefndin leggur þó ekki til að bönkum, sem starfa á báðum sviðum verði beinlínis skipt upp, þó starfsemin sé aðskilin.

Meðal annara tillagna er að eiginfjárskyldur verði auknar og verði um 10%, sem er þremur prósentum hærra en Basel III reglurnar, sem kynntar voru í fyrra, mæla fyrir um. Þá er lagt til að ýtt verði undir samkeppni á viðskiptamarkaði með ýmsum ráðum, m.a. þeim að viðskiptavinum verði gert auðveldara að skipta um banka.

Breska ríkisstjórnin er ekki skuldbundin til þess að fara að tillögum nefndarinnar, en George Osborne fjármálaráðherra lauk miklu lofi á hana í morgun. Samtök breskra fjármálafyrirtækja (BBA) hafa tekið henni vel og segja margar góðar hugmyndir í henni, sem samrýmist vel hinum tvöföldu markmiðum um fjármálastöðugleika og efnahagsbata. Almennt er talið að breski bankaiðnaðurinn muni styðja niðurstöðurnar og endurspeglaðist það þegar í hærra gengi hlutabréfa í helstu bönkum. Binda margir vonir við að tillögur nefndarinnar muni fylla í tómarúmið eftir að Evrópusambandið gaf frá sér að koma á nýju, samræmdu regluverki um bankastarfsemi.