Írskir eigendur Kalkþörungafélagsins í Bíldudal hafa kynnt áform um að skera þang og þörunga í Breiðafirði til vinnslu í Stykkishólmi undir merkjum Deltagen Iceland. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

„Það er verið að tala um fimmtán til átján manna vinnustað. Þar að auki eru þeir sem sinna þangslætti og söfnun á þangi og þróunar- og tæknivinnu og öðrum störfum sem fylgja. Þetta er í samræmi við áætlanir sem þeir hafa kynnt fyrir okkur og ég hef kynnt í bæjarstjórn og skipulags- og byggingarnefnd og umhverfisnefnd,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, í samtali við Fréttablaðið.

Sturla segir jafnframt að áætlanir Deltagen Iceland geri ráð fyrir meiri vinnslu á hráefninu en sé í þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Hann segir um að ræða samstarfsverkefni sem menn séu áhugasamir um að verði að veruleika og aðilar eigi í jákvæðum viðræðum.