Aðilar á bankamarkaði hafa óskað eftir viðræðum við Saga Capital að undanförnu með sameiningu huga, að því er Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vill þó ekki tilgreina um hvaða aðila er að ræða, né hvort formlegar viðræður séu í gangi, en segir þó sammerkt með umræddum aðilum að vilja styrkja eiginfjárhlutfall sitt.

„Þetta eru fleiri en einn og fleiri en tveir aðilar, aðilar sem þurfa á eigin fé að halda, sem hafa komið að máli við okkur með sameiningu að leiðarljósi. Við erum með 56% eiginfjárhlutfall og aðilar sem eru ekki jafn sterkir á því sviði horfa vitanlega til okkar. Það væri hins vegar ekki ábyrgt af mér að tjá mig um á hvaða stigi slíkar athuganir eru,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

„Við erum svolítið eins og síðasta óspjallaða meyjan á útihátíð og þriðji dagur útihátíðarinnar er runninn upp, þannig að margir vilja inn í tjaldið. Það fara að verða fáir uppistandandi sem vert er að fá í svefnpokann en við erum hins vegar í þeirri stöðu að geta valið vel fyrir hverjum við myndum opna tjaldið, ef við gerum það yfirhöfuð.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .