*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 17. október 2014 17:30

Vilja vita hvaða vörur ríkisstofnanir kaupa

Tilgangurinn með frumvarpi að breyting á upplýsingalögum er að koma í veg fyrir spillingu og illa meðferð á opinberu fé.

Jóhannes Stefánsson

Óli Björn Kárason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á upplýsingalögum. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir spillingu og illa meðferð á opinberu fé.

Breytingin snýr að því að allar opinberar stofnanir og fyrirtæki sem eru að meirihluta í eigu ríkis og sveitarfélaga birti upplýsingar á heimasíðum sínum um vörur eða þjónustu sem hafa samanlagt kostað yfir 150.000 krónum. Ríkisstofnanir myndu þannig þurfa að tilgreina hvað var keypt, fyrir hvaða fjárhæð og af hverjum var keypt.

Auki ráðdeild og upplýsi spillingu

Markmið með frumvarpinu er að draga úr spillingu og sóun með opinbert fé „sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður. Gagnsæi við kaup opinberra aðila á vöru og þjónustu hamlar því að óeðlilega sé staðið að verki og eykur þar með traust á opinberum aðilum," segir í greinargerð með frumvarpinu.

„Megintilgangur frumvarps þessa er að tryggja aðgang almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis og sveitarfélaga, verja sameiginlegum fjármunum. Aðgangur almennings að slíkum upplýsingum er sjálfsagður og eðlilegur. Þá mun birting þeirra leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

„Á síðustu árum hafa verið stigin ákveðin skref í Bretlandi við að opna opinbera stjórnsýslu og gera fjármál ríkis og sveitarfélaga gagnsærri. Árangurinn er aukið aðhald, sparnaður í innkaupum en ekki síður hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrari vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Þannig hefur samkeppni um viðskipti við opinbera aðila aukist sem hefur leitt til lægra verðs á aðföngum og keyptri þjónustu,“ segir jafnframt.

Stikkorð: Upplýsingalög