Ríkisstjórnin krafði bandaríska stjórnvöld fyrr í vikunni með formlegum hætti um svör við því hvort njósnað hafi verið um íslenska stjórnmálamenn og Íslendinga. Erindið var sent í gegnum bandaríska sendiráðið hér á landi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti jafnframt á fundi sínum í morgun að grafast fyrir um það hvort rétt sé að stjórnvöld sé á meðal þeirra 23 ríkja sem hafi starfað náið með Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA).

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi innanríkisráðherra, innti Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við fréttum þess efnis að Ísland sé á meðal þeirra sem hafi unnið með NSA að njósnunum og veitt stofnuninni upplýsingar. Spænska dagblaðið El Mundo fjallaði um málið í gær og sagði Ísland á listanum.

Sigmundur sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi með ólíkindum að ríki sem stjórnvöld hafi talið bandamann sinn hafi beitt njósnum og nýrri tækni til að njósna um fólk og þjóðarleiðtoga.

„Íslensk stjórnvöld hafa alltoft gert athugasemdir við framferði bandarískra stjórnvalda og komð því á framfæri að við teljum þetta óásættanlegt,“ sagði Sigmundur.