Nokkur af stærri innflutningsfyrirtækjum landsins, í þeirra hópi félagar í Félagi atvinnurekenda, hafa sent Samkeppniseftirlitinu bréf og óskað eftir upplýsingum um hvort gögn þeim tengd hafi komið í ljós við rannsókn eftirlitsins á Eimskip og Samskipum. Sé það raunin gæti komið til greina að stefna félögunum til greiðslu bóta.

Um miðjan júní var kunngjört að Eimskip hefði ritað undir sátt við Samkeppniseftirlitið. Í sáttinni fólst að Eimskip viðurkenndi að hafa viðhaft samskipti og samráð við Samskip á árunum 2008-2013 auk þess að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart eftirlitinu. Með því viðurkenndi félagið brot gegn samkeppnislögum og EESsamningnum og féllst á að greiða 1.500 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

Meðal þeirra brota sem Eimskip viðurkenndi var að hafa haft samráð við Samskip um breytingar á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu í sjóflutningum til og frá Íslandi. Þá viðurkenndi Eimskip að félögin hefðu skipt mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum á rannsóknartímabilinu auk þess að hafa viðhaft samráð um álagningu gjalda og afsláttarkjara á sama tímabili.

Sáttin batt enda á rúmlega áratugar langa rannsókn eftirlitsins hvað varðaði Eimskip. Síðla árs 2019 hafði Eimskip stefnt eftirlitinu og krafist þess að rannsóknin yrði dæmd ólögmæt og hún felld niður. Áður en til aðalmeðferðar kom var málið hins vegar fellt niður af hálfu Eimskipa. Rétt rúmu ári síðar lá sáttin fyrir. Frá því að tilkynnt var um sáttina hefur gengi bréfa félagsins hækkað um rúmlega 40 prósent. Strax á fyrstu þremur vikunum eftir sáttina hækkaði gengi bréfanna um 34 prósent.

Þó að sátt við Eimskip liggi fyrir hefur ekki fengist botn í mál Samskipa og er það því enn til meðferðar hjá stofnuninni. Komið hefur fram að félagið hafi fyrst heyrt af sáttinni í fjölmiðlum og stjórnendur hafi komið af fjöllum þegar sagt var frá efni hennar. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif sáttin mun hafa á mál félagsins fyrir eftirlitinu.

Viðbúið að fjölgi í hópnum

„Þau brot sem Eimskip hefur viðurkennt eru alvarleg brot á samkeppnislögum, enda hefur fyrirtæki aldrei greitt hærri sekt vegna samkeppnisbrota,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður FA, sem hafði milligöngu um upplýsingabeiðni fyrirtækjanna til Samkeppniseftirlitsins. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst hefur félögunum enn sem komið er ekki borist svar frá eftirlitinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .