Bæjarráð Vesturbyggðar hefur óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um endurbætur á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og um yfirtöku á rekstri heilbrigðisstofnunarinnar af því er fram kemur í Morgunblaðinu. Endurbæturnar felast í viðbyggingu við heilsugæsluna á Patreksfirði sem yrði að hjúkrunarheimili fyrir aldraða, en í dag er hjúkrunarheimilið rekið innan heilsugæslunnar.

Arnheiður Jónsdóttir, verkefnastjóri í málefnum aldraðra, segir í samtali við Morgunblaðið að málið hafi lengi verið í undirbúningi innan bæjarfélagsins og að erindi sama efnis hafi einnig verið borið undir fyrri heilbrigðisráðherra. Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs Vesturbyggðar, segir sveitarfélagið ekki ráða við byggingu hjúkrunarheimilisins og því verði ekki af framkvæmdunum ef ekki verður af þátttöku ríkisins.

Vesturbyggð hefur einnig óskað eftir yfirtöku reksturs Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar. Í dag sér sveitarfélagið um heimilisþjónustu og aðra þjónustu er varðar eldri borgara en heilbrigðisþjónustan er á vegum ríkisins. Ásgeir segir slíka yfirtöku hafi heppnast vel á Höfn í Hornafirði og á Akureyri og telur fyrirkomulagið einnig henta Vesturbyggð. „Við höfum skorið mikið niður en með þessu gætum við tryggt starfsöryggi starfsmanna okkar.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir erindið vera komið inn á borð ráðuneytisins, en ekki sé búið að fara yfir það með formlegum hætti og ótímabært sé því að gefa upp afstöðu ráðuneytisins.